martes, 20 de junio de 2017

SÍSERA (ÍSL.)


DÓMARABÓKIN

KAFLA 4


1 Þegar Ehúð var dáinn, gjörðu Ísraelsmenn enn að nýju það, sem illt var í augum Drottins. 
2 Og Drottinn seldi þá í hendur Jabín, Kanaans konungi, sem hafði aðsetur í Hasór. Hershöfðingi hans hét Sísera og bjó hann í Haróset Hagojím. 
3 Og Ísraelsmenn hrópuðu til Drottins, því að hann átti níu hundruð járnvagna og hafði kúgað Ísraelsmenn harðlega í tuttugu ár. 
4 Kona hét Debóra. Hún var spákona og eiginkona manns þess, er Lapídót hét. Hún var dómari í Ísrael um þessar mundir. 
5 Hún sat undir Debórupálma milli Rama og Betel á Efraímfjöllum, og Ísraelsmenn fóru þangað upp til hennar, að hún legði dóm á mál þeirra. 
6 Hún sendi boð og lét kalla til sín Barak Abínóamsson frá Kedes í Naftalí og sagði við hann: "Sannlega hefir Drottinn, Ísraels Guð, boðið svo: ,Far þú og hald til Taborfjalls og haf með þér tíu þúsundir manna af Naftalí sonum og Sebúlons sonum. 
7 Og ég mun leiða Sísera, hershöfðingja Jabíns, með vögnum hans og liði til þín að Kísonlæk, og ég mun gefa hann í hendur þínar.'" 
8 Barak sagði við hana: "Fara mun ég, ef þú fer með mér, en viljir þú eigi fara með mér, mun ég hvergi fara." 
9 Hún svaraði: "Víst mun ég með þér fara. En enga frægð munt þú hafa af för þessari, sem þú fer, því að Drottinn mun selja Sísera í konu hendur." Síðan tók Debóra sig upp og fór með Barak til Kedes. 
10 Þá kallaði Barak saman Sebúlon og Naftalí í Kedes, og tíu þúsundir manna fóru með honum, og Debóra var í för með honum. 
11 Heber Keníti hafði skilist við Kain, við niðja Hóbabs, tengdaföður Móse, og sló hann tjöldum sínum allt að eikinni hjá Saanaím, sem er hjá Kedes. 
12 Nú var Sísera sagt frá því, að Barak Abínóamsson væri farinn upp á Taborfjall. 
13 Dró Sísera þá saman alla vagna sína, níu hundruð járnvagna, og allt það lið, er með honum var, frá Haróset Hagojím til Kísonlækjar. 
14 Þá sagði Debóra við Barak: "Rís þú nú upp, því að nú er sá dagur kominn, er Drottinn mun selja Sísera í þínar hendur. Sannlega er Drottinn farinn á undan þér." Fór Barak þá ofan af Taborfjalli, og tíu þúsundir manna fylgdu honum. 
15 Og Drottinn gjörði Sísera felmtsfullan og alla vagna hans og allan hans her með sverðseggjum frammi fyrir Barak, svo að Sísera hljóp af vagni sínum og flýði undan á fæti. 
16 En Barak elti vagnana og herinn allt til Haróset Hagojím, og allur her Sísera féll fyrir sverðseggjum. Enginn komst undan. 
17 Sísera flýði á fæti til tjalds Jaelar, konu Hebers Keníta, því að friður var milli Jabíns, konungs í Hasór, og húss Hebers Keníta. 
18 Þá gekk Jael út í móti Sísera og sagði við hann: "Gakk inn, herra minn, gakk inn til mín, vertu óhræddur." Og hann gekk inn til hennar í tjaldið, og hún lagði ábreiðu yfir hann. 
19 Þá sagði hann við hana: "Gef mér vatnssopa að drekka, því að ég er þyrstur." Hún leysti þá frá mjólkurbelg og gaf honum að drekka, og breiddi síðan ofan á hann aftur. 
20 Þá sagði hann við hana: "Stattu í tjalddyrunum, og ef einhver kemur og spyr þig og segir: ,Er nokkur hér?' þá seg þú: ,Nei.'" 
21 Jael, kona Hebers, þreif tjaldhæl og tók hamar í hönd sér og gekk hljóðlega inn til hans og rak hælinn gegn um þunnvangann, svo að hann gekk í jörð niður, en Sísera var sofnaður fastasvefni, því að hann var þreyttur. Varð þetta hans bani. 
22 Í sama bili kom Barak og var að elta Sísera. Jael gekk þá út í móti honum og sagði við hann: "Kom þú hingað, og mun ég sýna þér þann mann, sem þú leitar að." Og hann gekk inn til hennar, og lá þá Sísera þar dauður með hælinn gegnum þunnvangann. 
23 Þannig lægði Guð á þeim degi Jabín, Kanaans konung, fyrir Ísraelsmönnum. 
24 Og hönd Ísraelsmanna lagðist æ þyngra og þyngra á Jabín, Kanaans konung, uns þeir að lokum gjörðu út af við hann.

KAFLA 5

1 Þá sungu þau Debóra og Barak Abínóamsson á þessa leið: 
2 Foringjar veittu forystu í Ísrael, og fólkið kom sjálfviljuglega, lofið því Drottin! 
3 Heyrið, þér konungar, hlustið á, þér höfðingjar! Drottin vil ég vegsama, ég vil lofa hann, lofsyngja Drottni, Ísraels Guði. 
4 Drottinn, þegar þú braust út frá Seír, þegar þú brunaðir fram frá Edómvöllum, þá nötraði jörðin og himnarnir drupu, já, skýin létu vatn niður streyma. 
5 Fjöllin skulfu fyrir Drottni, sjálft Sínaí fyrir Drottni, Ísraels Guði. 
6 Á dögum Samgars Anatssonar, á dögum Jaelar, voru þjóðbrautir mannlausar, og vegfarendur fóru krókóttar leiðir. 
7 Fyrirliða vantaði í Ísrael, uns þú komst fram, Debóra, uns þú komst fram, móðir í Ísrael! 
[···]
9 Hjarta mitt heyrir leiðtogum Ísraels, þeim er komu sjálfviljuglega fram meðal fólksins. Lofið Drottin! 
10 Þér, sem ríðið bleikrauðum ösnum, þér, sem hvílið á ábreiðum, og þér, sem farið um veginn, hugsið um það. 
[···]
12 Vakna þú, vakna þú, Debóra, vakna þú, vakna þú, syng kvæði! Rís þú upp, Barak, og leið burt bandingja þína, Abínóams sonur! 
13 Þá fóru ofan leifar göfugmennanna, lýður Drottins steig ofan mér til hjálpar meðal hetjanna. 
14 Frá Efraím fóru þeir ofan í dalinn, á eftir þér, Benjamín, meðal liðsflokka þinna. Frá Makír fóru ofan leiðtogar og frá Sebúlon þeir, er báru liðstjórastafinn, 
15 og fyrirliðarnir í Íssakar með Debóru, og eins og Íssakar, svo og Barak. Hann steypti sér á hæla honum ofan í dalinn. Við Rúbens læki voru miklar ráðagerðir. 
16 Hví sast þú milli fjárgirðinganna og hlustaðir á pípublástur hjarðmannanna? Við Rúbens læki voru miklar ráðagerðir. 
17 Gíleað hélt kyrru fyrir hinumegin Jórdanar og Dan, - hvers vegna dvaldi hann við skipin? Asser sat kyrr við sjávarströndina og hélt kyrru fyrir við víkur sínar. 
18 Sebúlon er lýður, sem hætti lífi sínu í dauðann, og Naftalí, á hæðum landsins. 
19 Konungar komu og börðust, þá börðust konungar Kanaans við Taanak hjá Megiddóvötnum. Silfur fengu þeir ekkert að herfangi. 
20 Af himni börðust stjörnurnar, af brautum sínum börðust þær við Sísera, 
21 Kísonlækur skolaði þeim burt, orustulækurinn, lækurinn Kíson. Gakk fram, sál mín, öfluglega! 
22 Þá hlumdu hófar hestanna, af reiðinni, reið kappanna. 
23 "Bölvið Merós!" sagði engill Drottins, já, bölvið íbúum hennar, af því að þeir komu ekki Drottni til hjálpar, Drottni til hjálpar meðal hetjanna. 
24 Blessuð framar öllum konum veri Jael, kona Hebers Keníta, framar öllum konum í tjaldi veri hún blessuð! 
25 Vatn bað hann um, mjólk gaf hún, í skrautlegri skál rétti hún honum rjóma. 
26 Hún rétti út vinstri hönd sína eftir hælnum, hægri hönd sína eftir smíðahamrinum og sló Sísera, mölvaði haus hans, laust sundur þunnvanga hans og klauf inn úr. 
27 Hann hné fyrir fætur henni, féll út af og lá þar. Hann hné fyrir fætur henni, féll út af, þar sem hann hné niður, þar lá hann dauður. 
28 Út um gluggann skimar og kallar móðir Sísera, út um grindurnar: "Hví seinkar vagni hans? Hvað tefur ferð hervagna hans?" 
29 Hinar vitrustu af hefðarfrúm hennar svara henni, já, sjálf hefir hún upp fyrir sér orð þeirra: 
30 "Efalaust hafa þeir fengið herfang og verið að skipta því, eina ambátt, tvær ambáttir á mann, litklæði handa Sísera að herfangi, litklæði, glitofin, að herfangi, litklæði, tvo glitofna dúka um háls mér!" 
31 Svo farist allir óvinir þínir, Drottinn! En þeir, sem hann elska, eru sem sólaruppkoman í ljóma sínum. Var nú friður í landi í fjörutíu ár.

No hay comentarios:

Publicar un comentario